Háskóli Íslands

Er líf á undan og eftir þessu?

 „Ýmsar rannsóknir  gefa vísbendingar um, að bæði sé líf á undan og eftir þessu.“  Þetta segir Erlendur Haraldsson, fyrrverandi prófessor í sálfræði við Háskóla Íslands og stofnandi Styrktarsjóðs Erlendar Haraldssonar, en hann hefur rannsakað ítarlega fyrirbæri, sem flestir vísindamenn hafa sniðgengið; spurninguna um sjálft handanlífið.
 
Erlendur Haraldsson ólst upp á Seltjarnarnesi fyrir miðja síðustu öld, en Nesið var þá vart farið að byggjast upp. Það var þá sveit með fáeinum kúabúum og nokkrum húsum fólks, sem starfaði í Reykjavík. Þarna luktist faðmur náttúrunnar um lítinn dreng og leiddi hann á vit fuglanna og frelsisins í fjörunni. Í fjörunni hugsaði lítill snáði um tilgang tilveru sinnar þegar við honum blöstu víðerni hafsins sem hann átti seinna eftir að fljúga yfir eins og fuglarnir. Eftir stúdentspróf frá MR nam Erlendur heimspeki og sálfræði beggja vegna Atlantsála. Hann nam fyrst heimspeki við Edinborgarháskóla þar sem margir heimsþekktir menn höfðu setið á skólabekk á undan honum. Í þeirra hópi var Charles Darwin, sem setti fram líffræðilega kenningu um þróun tegundanna, sem ætlað var að skýra framþróun lífveranna á jörðinni. Segja má að áhugi Erlendar hafi snemma snúist um það gagnstæða, að kanna hvort nokkuð væri hæft í hugmyndum um tilvist lífveranna að loknu lífinu hérna megin grafar, þ. e.  í einhverjum öðrum veruleika, en hinum efnislega.
 
„Það sem er minnisstæðast frá Edinborg er að veturinn fannst mér  kaldur því húsakosturinn var miklu lakari þar, en við áttum að venjast hér heima,“ segir Erlendur og brosir. Hann kom því  heim í ylinn, áður en hann hélt aftur utan, en í það skiptið til Þýskalands. Áhuginn á hinu dulræna sviði tilverunnar jókst við námið í Freiburg. Þar hélt kennari nokkur, prófessor Hans Bender, námskeið þar sem saman fléttuðust sálfræði og yfirskilvitlegir þættir. Erlendur fann strax fyrir brennandi áhuga á þessu viðfangsefni og hóf í framhaldinu rannsóknir sem beindust að þessum efniviði í samvinnu við prófessor Hans Bender og síðar aðra.
 
 
Á átakasvæðum í Kúrdistan
Um tíma gerði  Erlendur hlé á námi og vann m. a. við blaðamennsku. Fyrir utan rannsóknir sínar vakti Erlendur landsathygli fyrir kynni sín af Kúrdum á sjöunda áratugnum, en hann studdi einarðlega frelsisbaráttu þeirra í Írak. Hann fór víða um lönd vesturhluta Asíu og dvaldi þá um sinn meðal vopnaðra kúrdískra uppreisnarmanna. Þótti mörgum hann leggja sig í mikla hættu með þessum ferðalögum djúpt í hjarta átakanna.
 
„Ég var sjaldan smeykur,“ segir Erlendur og kímir. „Kúrdar hafa lengi þolað mikla kúgun, en hagur þeirra í Írak vænkaðist mjög við innrás Bandaríkjamanna. Þeir eru  í betri stöðu núna en nokkru sinni  áður. Framfarir á svæðum Kúrda hafa  verið mun meiri en  annars staðar í Írak eftir að Saddam Hussein var ýtt frá völdum,“ segir Erlendur. Um kynni sín af Kúrdum ritaði hann bókina Með uppreisnarmönnum í Kúrdistan (1964), sem kom út á þýsku tveimur árum seinna sem Land im Aufstand Kurdistan, þá aukin og endurbætt eftir aðra dvöl hans með Kúrdum.
 
Erlendur lauk svo doktorsgráðu í sálfræði frá Háskólanum í Freiburg en í doktorsritgerðinni beindi hann sjónum að þeim þáttum, sem áttu eftir að lita allt hans ævistarf, fyrirbærum, sem margir telja að fyrirfinnist ekki, svo sem hrein hugræn tengsl milli fólks og áhrif hugans á líkama og umhverfi. Og svo var það spurningin um líf að loknu þessu og ýmis fyrirbæri, sem virtust benda til framlífs, sem áttu eftir að heilla huga hans í auknum mæli.
 
Að loknu námi í Þýskalandi hélt Erlendur til Bandaríkjanna og var þar við störf og nám í nokkur  ár, m.a. við Virginíuháskóla.
 
 
Sýnir fólks á dánarbeði

Erlendur átti því láni að fagna að vera boðið að taka þátt í umfangsmikilli rannsókn á upplifun eða ofskynjunum/sýnum fólks á dánarbeði.  Hún fór  fram bæði í Bandaríkjunum og á Indlandi en ætlunin var að skoða hvort upplifun væri lituð af trúarbrögðum og menningu þessara landa. Dr. Karlis Osis leiddi þessa rannsókn og fékk Erlend til að vinna með sér.
 
„Við gerðum spurningalista, sem var borinn undir fólk, sem líknaði deyjandi sjúklingum. Við tókum viðtöl við yfir sjö hundruð lækna og hjúkrunarkonur, sem höfðu orðið vitni að sýnum deyjandi manna, þ. e. sjúklinga, sem voru á eða nálægt mörkum lífs og dauða.  Deyjandi fólk sagðist sumt sjá eða skynja náin, látin skyldmenni eða handanverur. Þessi horfnu skyldmenni sögðust vera komin til að taka á móti hinum deyjandi og leiða hann yfir í annað líf,“ segir Erlendur. „Það kom okkur á óvart að reynslan var mjög svipuð í Bandaríkjunum og á Indlandi þrátt fyrir ólíka menningarheima.“
 
Um þessa umfangsmiklu rannsókn rituðu þeir félagar bókina At the Hour of Death. Hún kom út árið 1977 og hefur síðan komið út í fjölda þýðinga, alls í 20 útgáfum, síðast í fyrra í Englandi.
 
Í rannsókninni var lögð áhersla á að afla upplýsinga um ástand hinna deyjandi, svo sem sótthita, sjúkdóm, lyfjagjöf  eða annað sem gæti leitt til  ofskynjana. „Eftir því sem lyfjagjöf og aðrir ofskynjunarvaldandi þættir voru minni, og fólkið í raun allsgáðara, því afdráttarlausari varð þessi reynsla,“ segir Erlendur, „Það kom á óvart. Sumir höfðu talið að þessar sýnir stöfuðu eingöngu af ofskynjunarvaldandi lyfjum, sótthita og öðrum slíkum þáttum.“
Erlendur segir að þungamiðja þessarar rannsóknar hafi verið sýnir á dánarbeði. „Hluti hennar snerist þó einnig um sjúklinga sem komust að mörkum lífs og dauða en snéru aftur. Nú hefur þetta verið nefnt nær-dauða reynsla og vakið verulega athygli vegna lýsinga fólks á því, er því finnst það vera utan líkama síns og í „handanheimum“. Þar  hittir það einnig látin skyldmenni og bjartar handanverur, svipað og í sýnum þeirra sem deyja. Tilvera þessara fyrirbæra er smám saman að verða þekktari og það í nægilega ríkum mæli til þess að TIME birti nýlega bók um málið; Beyond Death: The Science of the Afterlife með viðeigandi titilblaði; Visions of Heaven. Journey through the Afterlife,“ segir Erlendur.
 
Um þriðjungur orðið fyrir dulrænni reynslu að eigin sögn
Árið 1974 hóf Erlendur starf sem lektor í sálfræði við Háskóla Íslands og flutti heim eftir margra ára dvöl í Bandaríkjunum og Þýskalandi. Hann hóf strax ýtarlega könnun á viðhorfum Íslendinga til dulrænna fyrirbæra og þjóðtrúar og reynslu landsmanna af þeim. Þetta var gert með 1100 manna tilviljunarúrtaki og með virkri aðstoð nokkurra nemenda Erlendar. Niðurstöðurnar vöktu mikla athygli; um tveir þriðju hlutar þjóðarinnar töldu sig hafa orðið fyrir reynslu af dulrænum toga. Um þessa rannsókn ritaði Erlendur bókina Þessa heims og annars. Könnunin var endurtekin fyrir örfáum árum í félagi við Terry Gunnell, prófessor í þjóðfræði við Háskóla Íslands. „Niðurstaðan varð mjög svipuð. Eftir sem áður, kveðst meirihluti Íslendinga sig hafa orðið fyrir yfirnáttúrulegri reynslu.“
 
Erlendur segir að við Íslendingar séum reyndar ekki einir um þetta. „Um 1980 var evrópska gildakönnunin framkvæmd í 14 löndum Vestur-Evrópu, þar á meðal hér á landi og í Bandaríkjunum. Í henni voru þrjár spurningar um dulræna reynslu. Ítalir og  Bandaríkjamenn reyndust hafa mesta reynslu, 60% í báðum löndum. Í þriðja sæti voru Íslendingar með 52%, en Norðmenn ráku lestina með 24%.  Hins vegar var tíðast hér  á landi (41%) að hafa orðið fyrir reynslu af látnum, meðaltal Vestur-Evrópulanda var 25%, og Norðmenn enn lægstir þótt þeir séu skyldastir okkur allra þjóða. Undarlegur þessi munur á okkur og Norðmönnum og óþekkt hvað hefur valdið honum. Hefur veran á eldfjallalandinu í ellefu hundruð ár gert okkur næmari?“
 
Fáir ritað fleiri fræðibækur
Smám saman útvíkkaði Erlendur þessi viðfangsefni sín, t. d. með stórri rannsókn hér heima af meintri reynslu af látnum með viðtölum við um 450 manns sem töldu sig hafa orðið vara við látna manneskju. Um hana ritaði Erlendur bókina Látnir í heimi lifenda sem nýlega kom út á ensku sem The Departed among the Living. Erlendur hefur þannig haft „handanlífið“ í háskerpu í sínum rannsóknum mestan hluta starfsævinnar og birt um þær fjölda vísindagreina og ritað um bækur,  sem sumar hafa  verið gefnar út hvað eftir annað og á fjölda tungumála.
 
 
Sjónhverfingar og kraftaverk
Erlendur var um tíma félagi í samtökum sjónhverfingamanna í Bandaríkjunum en ætlunin var ekki að verða skemmtikraftur heldur að öðlast þekkingu á þeim brögðum sem sjónhverfingamenn beita. Ástæðan var sú, að Erlendur rannsakaði um hríð kraftaverkamanninn Śri Sathya Sai Baba frá Indlandi sem gerðist svo djarfur að breyta vatni, ekki í vín, heldur í bensín eða aðra vökva þegar mikið lá við.
 
„Maður getur vart sagt frá því, sem Sai Baba gerði, eða virtist gera, því þetta var margt með slíkum ólíkindum. Sai Baba sagði til dæmis félögum sínum að setja vatn á bensíntanka á bílum, sem urðu eldsneytislausir, þegar þeir sóttu hann heim.  Þar sem sveitaþorpið Puttaparti, sem Sai Baba bjó í, var þá mjög afskekkt var þar ekkert bensín að fá. Eins og hendi væri veifað ruku vélarnar í gang á bensínlausum bílunum og virtust þeir ganga fyrir vatninu einu saman,“ segir Erlendur og brosir. Nú er þarna að hans sögn háskóli, hátæknisjúkrahús og fjöldi íverustaða og hótela fyrir þann fjölda sem leggur leið sína þangað.
 
Erlendur segist hafa rætt ítarlega við Sai Baba sjálfan, við fylgismenn hans, gagnrýnendur og þá sem snúist höfðu gegn honum. Hann varð vitni að  mörgu, sem Sai Baba gerði af yfirnáttúrulegum toga. „Aldrei sá ég að hann hefði haft rangt við en þessi maður var með ólíkindum í flestu því sem hann tók sér fyrir hendur. Allt sem hann gerði tengdi hann við trúarbrögð og því eignaðist hann gríðarlega stóran hóp fylgjenda,“ segir Erlendur. „Hann lét svo gott af sér leiða og notaði fjármuni sem sumir jusu yfir hann, meðal annars til að reisa háskóla og stór nútímasjúkrahús fyrir fátæka.“ Sai Baba lést árið 2011.  Hann naut að lokum slíkrar virðingar á Indlandi að útför hans fór fram á vegum ríkisins og viðstödd  voru forsætisráðherra landsins, Manmohan Singh, og Sonja Gandhi, forseti indverska þingsins, að sögn Erlendar.
 
Erlendur ritaði um hann bókina Miracles Are My Visiting Cards (bandarísk útgáfa Modern Miracles), sem fyrst kom út árið 1987 og síðast í fyrra - mikið aukin og endurunnin – undir nafninu Modern Miracles, Sathya Sai Baba. The Story of a Modern Day Prophet. Þar með hefur bókin komið út í 19 útgáfum. „Meint kraftaverk Sai Baba eru mikið hitamál og hafa  dómar um  bók mína ekki farið varhluta af því. Eins og svo oft eru þeir dómharðastir og í orðsins fyllstu merkingu fordómafyllstir sem minnst eða ekkert þekkja til.“
 
Eldur í Kaupmannahöfn

Erlendur fylgdi um hríð Hafsteini Björnssyni, sem var landsþekktur miðill á Íslandi á síðustu öld og kannaði áreiðanleika þess sem fram kom á fundunum. Einnig hefur hann ritað ítarlegar greinar í erlend fræðirit um Indriða Indriðason (1882-1913) sem var að margra dómi langmerkastur allra miðla sem komið hafa fram hérlendis.
 
„Hjá Indriða var mikið um hreyfifyrirbæri, hlutir lyftust og flugu um loftið, einnig Indriði sjálfur. Raddir  hljómuðu og jafnvel sungu fullum hálsi víða um salinn og stundum fleiri en ein í senn. Allra ráða var beitt til að fylgjast með því að ekki væru svik í tafli, t. d. haldið um hendur Indriða og fætur af mönnum, sem sátu sitt hvorum megin við hann,“ segir Erlendur.
 
„Á fundi 24. nóvember 1905 birtist maður á miðilsfundi hjá Indriða sem holdi klæddur nefndi sig fabrikant Jensen og sagði frá því á Kaupmannahafnarmállýsku að eldur hefði brotist út í verksmiðju í Kaupmannahöfn. Svo birtist hann aftur klukkustundu seinna og hermdi, að tekist hefði að hemja eldinn. Þetta var skrifað niður og beðið eftir næsta skipi frá Kaupmannahöfn því að hvorki var síma- né loftskeytasamband við útlönd á þessum tíma. Næsta skip kom eftir nokkrar vikur. Þann 25. nóvember mátti finna frétt og fyrirsögn í Politiken: „Fabrikbrand i Store Kongensgade,“ er staðfesti allt sem komið hafði fram á fundinum.“
 
Týndi leggurinn og miðilsfundurinn
„Ég fylgdi Hafsteini Björnssyni um mánaðarskeið víða um land og fékk leyfi til að taka alla fundi upp á segulband. Á þeim bar mikið á persónu, sem kvaðst heita Runólfur Runólfsson og var nefndur Rúnki, hress karl og skemmtilegur. Saga Rúnka í miðilssambandi Hafsteins var mjög sérstök. Á fundi mjög snemma á ferli Hafsteins kom maður fram sem lét afar ófriðlega og vildi ekki segja til nafns þótt hann væri þráspurður. Hann var aftur á móti óspar á blótsyrði, allur hinn líflegasti, en til vandræða,“ segir Erlendur.
 
Nokkru síðar, þegar útgerðarmaður úr Sandgerði var einn fundarmanna, varð hinn ófriðlegi gestur að handan hinn kátasti að sögn Erlends. „Hann sagði sig sárvanta fótlegg, sem hann hefði tapað, og væri nú í húsi útvegsmannsins  í Sandgerði, sem átti þar stórt hús. Útvegsmaðurinn sagðist gjarnan vilja leita að leggnum en einungis ef sá framliðni segði til nafns. Hann hélt nú ekki og fór í fússi,“ segir Erlendur og kímir.
 
„Stuttu síðar kom þessi kynjakarl fram á öðrum miðilsfundi og sagðist þá heita Runólfur Runólfsson og hafa verið kallaður Rúnki í lifanda lífi. Við þessi tíðindi fer útvegsmaðurinn að grennslast fyrir um hvort fótleggur hefði sést í húsi hans en enginn mundi eftir að hafa rekist á neitt slíkt. Þá var leitað til iðnaðarmanns sem hafði unnið að endurbótum í húsinu og hann sagðist vel muna eftir lærlegg sem hefði verið á þvælingi um húsið. Þeir sem unnu við endurbæturnar hefðu komið leggnum fyrir á bak við þiljur. Þær voru svo teknar frá og þá kom í ljós lærleggur sem síðan var grafinn í vígðri mold með viðhöfn í Útskálakirkjugarði,“ segir Erlendur brosandi.
 
„Ég grófst svo fyrir um þetta mál,“ bætir hann við,  „og fann að maður með þessu nafni hafði búið í Klappakoti, nálægt Sandgerði. Hann hafði verið sjómaður en drukknað í fjörunni á leið heim til sín. Brimið hafði líklega rifið hann með sér, en hann hafði sennilega ekki verið allsgáður á ferðalaginu og kannski lagst til svefns í ölvímu í fjörunni. Sögur af þessum manni voru þess eðlis að hann hefði verið mikið fyrir vín,“ segir Erlendur og er hugsi um stund.
 
„Lík Runólfs fannst svo nokkru síðar sjórekið, en það vantaði hluta af líkinu,“ segir Erlendur.
 
Grein um þessa rannsókn vakti mikla athygli þegar hún birtist í bandarísku vísindatímariti á sviði dulsálarfræði (Journal of the American Society for Psychical Research).
 
 
Styrktarsjóður Erlendar Haraldssonar
Þótt Erlendur sé kominn yfir áttrætt flytur hann enn fyrirlestra víða um lönd um rannsóknir sínar, sem margar sýna niðurstöður, sem eru harla ótrúlegar flestum. Eins og áður er getið stundaði Erlendur m. a. rannsóknir á sýnum/ofsjónum fólks á dánarbeði, á reynslu fólks af látnum, starfi miðla, en einnig meintum minningum barna um fyrra líf og á umdeildum kraftaverkamönnum. Árið 2012 kom svo út ævisaga Erlendar, Á vit hins ókunna, sem jafnframt er saga rannsókna hans og starfa.
 
Nú hefur þessi áhugi Erlendar á yfirnáttúrulegum þáttum orðið kveikjan að stofnun styrktarsjóðs við Háskóla Íslands. Styrktarsjóður Erlendar Haraldssonar styður rannsóknir á dulrænum fyrirbærum og meintri dulrænni reynslu í anda vísindalegra rannsókna, sem Erlendur Haraldsson sinnti á vísindaferli sínum.
 
Aðspurður um ástæðurnar fyrir  tilurð sjóðsins, segir hann þetta: „Mér finnst mikilvægt að rannsóknum sé haldið áfram á því sviði, sem ég hef sinnt lengst af á mínum starfsferli en þeim hefur ekki verið sinnt sem skyldi. Þær eru mikilvægar því þær fjalla um eðli mannsins og möguleika á lífi, ef til vill bæði á undan og eftir þessu. Niðurstaðan gæti orðið sú, að við getum sagt með meiri vissu en áður, hvort þetta líf, hér og nú, sé það eina sem við lifum eða hvort við eigum annað í vændum og höfum jafnvel lifað öðru eða öðrum á undan þessu. Spurningin er líka sú hvort aðeins sé til hinn efnislegi veruleiki eða eitthvað annað og meira. Ýmsar rannsóknir gefa vísbendingar um að svo sé.“ Sjóðurinn heyrir undir Styrktarsjóði Háskóla Íslands. Frekari upplýsingar er að finna á sjóðavef HÍ.
 
Á heimasíðu Erlendar www.hi.is/~erlendur má finna fjölda greina, sem hann hefur birt um rannsóknir sínar.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is