Háskóli Íslands

Menningar- og framfarasjóður Ludvigs Storr

Tilgangur sjóðsins er að stuðla að framförum á sviði jarðefnafræða, byggingariðnaðar og skipasmíða með því að styrkja vísindamenn á sviði jarðefnafræða, verkfræðinga, arkitekta, tæknifræðinga og iðnaðarmenn til framhaldsnáms, svo og að veita styrki til rannsókna á hagnýtum úrlausnarefnum í þessum greinum. Stjórn sjóðsins er enn fremur heimilt að veita lán í sama tilgangi. Við mat á því hvort umsækjandi skuli hljóta styrk skal lagt til grundvallar hvort framhaldsnám umsækjanda eða rannsóknir geti stuðlað að raunhæfum framförum í þeirri grein, sem um ræðir. 

Sjóðurinn er stofnaður árið 1980 af Svövu Storr, ekkju Ludvigs Storr, og dóttur hans, Önnu Dúfu Storr. 

Ludvig Storr var fæddur í Kaupmannahöfn 21. október 1897. Að loknu verslunarprófi starfaði hann í glerfyrirtæki foreldra sinna en árið 1922 settist hann að á Íslandi. Hann stofnaði byggingavöruverslun Ludvigs Storr & Co. sem síðar varð árið 1937 Glerslípun og speglagerð hf. og úr varð umsvifamikill rekstur hér á landi. Ludvig Storr lét til sín taka í félagsmálum og starfaði í ýmsum félagsskap Dana hér á Íslandi. Hann var aðalræðismaður Dana á Íslandi frá árinu 1956 til dauðadags 1978. Meðal áhugamála hans var endurreisn Skálholtsstaðar og eru kirkjugluggar og fleiri listmunir í kirkjunni gjöf frá fjölskyldu hans. Ludvig Storr var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Elín Storr Sigurðardóttir (1901-1944) og áttu þau eina Dóttur, Önnu Dúfu Storr, sem lést fyrir nokkrum árum. Síðari kona Ludvigs Storr var Svava Einarsdóttir Storr (1917-2009) og voru þau barnlaus.

Tekjur sjóðsins eru húsaleigutekjur af Laugavegi 15 í Reykjavík. 

Í skipulagsskrá sjóðsins segir: Stjórn sjóðsins skal skipuð þremur mönnum, sem háskólaráð Háskóla Íslands kýs til þriggja ára í senn. Auk þeirra skipa sjóðsstjórnina Svava Storr, ekkja Ludvigs Storr, og Anna Dúfa Storr, dóttir hans, meðan þær lifa og óska að sitja í stjórninni. Svava Storr er formaður sjóðsstjórnar, en sjóðsstjórn kýs formann úr sínum hópi er Svava lætur af formennsku. 

Skipun stjórnar 2023-2026:

  • David Pitt, framkvæmdastjóri
  • Ebba Þóra Hvannberg, prófessor
  • Ari Karlsson, lögmaður

Varamaður:

  • Sigrún Nanna Karlsdóttir, prófessor

Umsjónarmaður sjóðsins:

Sjóðurinn starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og hefur sjálfstætt starfandi stjórn.

Skipulagsskrá (.pdf).

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is