Háskóli Íslands

Nærri 19 milljónir til rannsókna og tækjakaupa úr Eggertssjóði

Tíu starfsmenn Háskóla Íslands hafa hlotið styrki úr Eggertssjóði til rannsókna og tækjakaupa er tengjast rannsóknum. Styrkirnir nema samtals 8,6 milljónum króna. Auk þess var veitt tíu milljóna króna framlag úr sjóðnum til nýs örgreinis Jarðvísindastofnunar. Styrkirnir voru afhentir við athöfn á Háskólatorgi í gær, 24. júní.
 
Tilgangur Eggertssjóðs er að styrkja rannsóknir á sviði jarðfræði og líffræði og renna vísindastyrkirnir í ár til fjölbreyttra rannsókna og tækjakaupa á sviðum jarð-  og  lífvísinda.
 
Styrkþegar, sem allir hafa hafið störf við Háskóla Íslands á síðustu misserum, eru:
 
Erna Magnúsdóttir, sérfræðingur við Lífvísindasetur Háskóla Íslands, sem hlýtur styrk til rannsóknaverkefnis sem miðar að því að auka skilning  á hlutverki utanerfða- og umritunarþátta í mergæxlum. Tíðni slíkra krabbameina hækkar með aldrinum og hefur aukist samhliða hækkandi lífaldri á Vesturlöndum. Sjúkdómurinn dregur nær alla þá einstaklinga sem verða fyrir honum til dauða og því er áríðandi að auka skilning á þeim sameindaferlum sem fara úrskeiðis við myndun mergæxla. 
 
Margrét Helga Ögmundsdóttir, nýdoktor við Lífvísindasetur Háskóla Íslands, hlýtur styrk til rannsóknaverkefnis þar sem skoðað er hvernig sjálfsáti er stjórnað í frumum sortuæxla og kannað hvort hindrun sjálfsáts gæti nýst sem meðferðarmöguleiki. Við sjálfsát losa frumur sig við gölluð prótín og úr sér gengin frumulíffæri. Þannig myndast byggingarefni sem stuðla að vexti og viðgangi frumunnar þrátt fyrir óhagstæð ytri skilyrði. Lítið er vitað um stjórnun sjálfsáts í frumum sortuæxla en þó er ljóst að sjálfsáti virðist öðruvísi stýrt í sortuæxlafrumum en öðrum frumutegundum. 
 
Ólafur Andri Stefánsson, nýdoktor við Læknadeild Háskóla Íslands, fær styrk til verkefnis þar sem ætlunin er að skilgreina þátt sviperfða í því að marka mismunandi undirgerðir brjósta- og eggjastokkakrabbameina. Sviperfðir má skilgreina sem utanáliggjandi þætti erfðaefnisins sem m.a. stjórna aðgengi þess inni í frumukjarna. Þetta er lykilatriði í skilningi á því hvernig frumur geta viðhaldið upplýsingum um genatjáningu frá einni frumu til annarrar í kjölfar frumuskiptinga. Markmiðið er að finna ákveðnar sviperfðabreytingar sem hægt er að nota í sjúkdómsgreiningu með áherslu á ágengar undirgerðir áðurnefndra krabbameina.
 
Snædís Huld Björnsdóttir, nýdoktor og verkefnisstjóri hjá Matís, hlýtur styrk til rannsóknaverkefnisins „Jarðörverufræði íslenskra hverasvæða“ sem miðar að því að rannsaka áhrif lífrænna og ólífrænna þátta á mótun örverusamfélaga á ellefu íslenskum hverasvæðum. Samfélagsgerðir þessara örverusamfélaga verða greindar nákvæmlega og samþættar upplýsingum um möguleg efnahvörf en þannig er lagt mat á efnaskipti, undirstöður vistkerfa og tengsl mismunandi örveruhópa og umhverfisins. Einnig verður gerð athugun á lífríki hvera þar sem áhrifa sjávarfalla gætir en þau koma m.a. fram í breytingum á hitastigi og seltu. 
 
Alexander Jarosch, fræðimaður við Jarðvísindastofnun Háskólans, hlýtur styrk úr Eggertssjóði til kaupa á fjarflugu/dróna sem notuð verður til mælinga með hárri upplausn af kelfingu í jökuljaðri Breiðamerkurjökuls. Með kelfingu jökla er átt við ís sem brotnar af jökli í sjó eða lón og bráðnar þar. Breiðamerkurjökull kelfir í Jökulsárlón þar sem sjávarfallastrauma gætir og þar eru aðstæður til rannsókna afar góðar. Jöklahópur Jarðvísindastofnunar mun nýta mælingarnar í rannsóknir til að auka skilning á kelfingu en samkvæmt nýjustu skýrslu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar er þekking á kelfingarferlinu enn mjög ófullkomin. 
 
Guðfinna Aðalgeirsdóttir, dósent við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands, hlýtur styrk til að setja upp sjálfvirka veðurstöð til jöklarannsókna á norðurhluta Mýrdalsjökuls, nánar tiltekið á Sléttujökli. Veðurstöðin mun mæla hitastig, rakastig, loftþrýsting, vindhraða og stefnu sem eru allt veðurþættir til mats á orkubúskap við yfirborð jökuls. Með veðurstöðinni verður hægt að skoða hvaða veðurþættir leggja mest til bráðnunar jökla á hverjum tíma. Mikilvægt er að öðlast skilning á leysingu jöklanna vegna hagnýtingar vatnsins fyrir vatnsaflsvirkjanir en einnig hefur leysingavatn frá jöklum áhrif á sjávarstöðu og hafstrauma í kringum landið. 
 
Guðmundur H. Guðfinnsson,  fræðimaður  við Jarðvísindastofnun Háskólans, og Enikõ Bali, lektor við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands, hljóta styrk til að kaupa tæki til að rafsjóða sýnahylki fyrir bergfræðitilraunir. Á Jarðvísindastofnun er aðstaða til tilrauna á jarðefnum við háan hita og bæði háan og lágan þrýsting. Með slíkum tilraunum er hægt að rannsaka ferli sem m.a. tengjast uppbræðslu á skorpu og möttli, kristöllun og þróun kviku og áhrifum lofttegunda í kviku svo eitthvað sé nefnt. Í tilraununum eru jarðefnasýnin oftast lokuð inni í hylkjum og þeim lokað með rafsuðu. Mjög mikilvægt er að vel takist til við rafsuðuna svo sýnin tapist ekki eða mengist og hið nýja tæki mun gera rafsuðuna nákvæmari og auðveldari en áður.
 
Gunnar Þór Hallgrímsson, dósent við Líf- og umhverfisvísindadeild, hlýtur styrk til rannsókna á heilbrigði viðkvæmra fuglategunda sem treysta á Ísland sem mikilvægan þátt í lífsferli sínum. Skoðað verður hvernig stofnar og farhættir fugla tengjast líkamsástandi þeirra, dreifingu smitsjúkdóma og mengunarálagi.  Meðal helstu rannsóknaviðfangsefna eru vaðfuglar, sem verpa víða í Kanada og á Grænlandi, en nota Ísland sem viðkomustað á vorin og haustin. Þá er einnig ætlunin að rannsaka frekar dreifingu og skyldleika flensustofna sem fundist hafa í fuglum sem hafa hér viðkomu en slíkar rannsóknir eru mikilvægar til að skilja betur mögulega dreifingarhæfni hættulegri gerða flensuvírusa sem kunna að finnast hér í framtíðinni.
 
Sigríður Rut Franzdóttir, aðjunkt við Líf- og umhverfisvísindadeild, hlýtur styrk til verkefnisins „Hlutverk prótínanna Pontin og Reptin í taugakerfi ávaxtaflugunnar, staðsetning þeirra og tengsl í frumum“. Í verkefninu er ætlunin að nýta eiginleika ávaxtaflugunnar Drosophila melanogaster, sem er mikilvæg sem rannsóknalíkan innan lífvísinda, til að kanna hlutverk og innanfrumusamskipti prótínanna Pontin og Reptin sem eru lífsnauðsynleg. Þau hafa hlutverk í fjölbreytilegum ferlum innan frumunnar og eru m.a. nauðsynleg fyrir frumuskiptingar en eru yfirtjáð í krabbameinum. Þrátt fyrir þetta er enn lítið vitað um hvernig prótínin starfa. Í verkefninu er megináhersla lögð á að kanna hlutverk prótínanna í þroskun og sérhæfingu taugafruma, tjáningarmunstur þeirra, samskipti og tengsl við frumugrindina. 
 
Þá var sem fyrr segir veittur tíu milljóna króna styrkur úr sjóðnum vegna kaupa á nýjum örgreini við Háskóla Íslands. Örgreinir er ein gerð rafeindasmásjáa og eitt helsta efnagreiningartækið í bergfræði.  Um er að ræða grundvallartæki við margvíslegar rannsóknir í eldfjallafræði og gjóskulagafræði en einnig jarðlagafræði og fornloftslagsrannsóknum. Nákvæmar efnagreiningar í upphafsfasa eldgosa, eins og sprengjugosunum í Eyjafjallajökli 2010 og Grímsvötnum  2011, stuðla að öruggari viðbrögðum við náttúruvá.  Í ljósi þess að flugsamgöngur við landið geta teppst í eldgosum er ekki hægt að treysta á flutning sýna erlendis þegar eldgos verða. Því er það öryggismál fyrir Íslendinga að örgreinir sem uppfyllir nútímakröfur sé til í landinu auk þess sem það styrkir hlutverk íslenskra stofnana við ráðgjöf varðandi millilandaflug í okkar heimshluta þegar eldgos verða.
 
Auk Háskóla Íslands taka Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR), Jarðhitaskóli Sameinuðu þjóðanna, Landbúnaðarháskóli Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Nýsköpunarmiðstöð, Veðurstofa Íslands og Þjóðminjasafn Íslands þátt í fjármögnun nýs örgreinis.
 
Um Eggertssjóð
Eggertssjóður var stofnaður við Háskóla Íslands árið 1995 eftir að Eggert Vilhjálmur Briem (f. 18. ágúst 1895, d. 14. maí 1996) hafði ánafnað skólanum eignir sínar, erlend verðbréf og gjaldeyrisreikning.
Eggert fæddist að Goðdölum í Skagafirði og fór ungur til vélfræðináms í Þýskalandi en síðan til Bandaríkjanna 1914–1918. Eftir veru sína þar starfaði Eggert nokkur ár á Íslandi en hélt aftur til Bandaríkjanna 1928, tók þar flugvirkjapróf og síðar atvinnuflugmannspróf 1930. Um árabil vann hann í verksmiðjum vestanhafs og hafði eftir það tekjur af uppfinningum, m.a. varðandi saumavélar. Eggert var jafnframt mikill áhugamaður um raunvísindi og las sér margt til um þau. 
 
Eggert kynntist Þorbirni Sigurgeirssyni prófessor um 1958 en Þorbjörn hafði þá nýverið komið upp Eðlisfræðistofnun Háskólans. Eggert gerðist sérstakur velgerðarmaður þeirrar stofnunar og síðan Raunvísindastofnunar Háskólans sem tók við hlutverki Eðlisfræðistofnunar 1966. Eggert flutti heim til Íslands árið 1970 og sat hann löngum á bókasafni Raunvísindastofnunar við lestur á efri árum sínum, spjallaði við starfsmenn um fræðileg hugðarefni og tók þátt í ferðalögum á vegum stofnunarinnar, meðal annars upp á jökla. Færði Eggert þessum stofnunum margs konar tæki að gjöf og styrkti einnig þróun nýrra rannsóknasviða þeirra og margvísleg ný vísindaverkefni við Háskóla Íslands. 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is