Háskóli Íslands

Eldgos undir jökli

Björn Oddsson, doktorsnemi í Jarðvísindadeild

„Ég hef alltaf haft áhuga á aflfræðilegri jarðfræði, aðallega þeim þáttum sem standa okkur Íslendingum næst, þ.e. eldfjalla-, jökla og jarðhitafræðum. Ég fjallaði um eldgosið í Grímsvötnum í meistaranámsverkefni mínu. Viðfangsefnið var útbreiðsla gjósku og hvernig hún dreifðist yfir jökulinn," segir Björn Oddsson, doktorsnemi í jarðeðlisfræði.

Við rannsóknir sínar kynntist hann þýskum vísindamönnum sem hafa brætt gjósku og myndað ráð. Í framhaldi af þessu samstarfi kom upp hugmynd um að nota tilraunastofuna í Þýskalandi til þess að líkja eftir þeim ferlum sem eiga sér stað í rótum jarðhitasvæða og eldgosum undir jökli með því að láta bráð og upphitað berg komast í samband við vatn og ís.

Björn segir að verkefnið fjalli um eftirfarandi þætti: Í fyrsta lagi er lagt mat á varmafræðilega þætti við kólnun kviku og í heitu bergi. Í öðru lagi er náttúrulegt varmatap jarðhitasvæða metið og þá aðallega í Kverkfjöllum og Grímsvötnum. Þessir tveir þættir eru síðan lagðir saman. Lagt er mat á stærð og eðli varmagjafanna í rótum jarðhitasvæðanna í Grímsvötnum og Kverkfjöllum. Með þessum aðferðum er vonandi hægt að leggja mat á varmabúskap jarðhitasvæða og eldgosa sem verða undir jöklum.

Niðurstöður rannsóknarinnar munu auka skilning manna á varmanámi frá kólnandi bergi eða kviku út í umhverfið. Athuganir á óspilltum jarðhitasvæðum eins og í Kverkfjöllum og Grímsvötnum munu auka skilning manna á tilvist og þróun slíkra svæða. Auk þess munu nýjar mæliaðferðir og niðurstöður þeirra verða lagðar inn í sístækkandi þekkingarbanka Íslendinga í jarðhitafræðum.

Leiðbeinandi: Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor og forseti Jarðvísindadeildar.

Björn hlaut styrk úr Háskólasjóði Eimskipafélags Íslands árið 2008.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is