Háskóli Íslands

Vetnissamsætur kísilþörunga í íslensku stöðuvatnaseti – nýr veðurvísir

Christopher Florian, doktorsnemi við Jarðvísindadeild

Náttúrulegar loftslagsbreytingar, einkum af völdum sólgeislunar, breytileika í hnattstöðu jarðar og eldgosa, er unnt að rannsaka í setlögum stöðuvatna. Stöðuvötn eru dreifð um allt Ísland og set þeirra geymir gögn um umhverfisbreytingar fyrr á tímum. Með nákvæmum rannsóknum á stöðuvatnaseti er því unnt að rekja loftslags- og umhverfisbreytingar eins langt aftur og setmyndanir ná. Lífrænar sameindir, sem þörungar í vötnum framleiða, innihalda gríðarmiklar upplýsingar um umhverfi í fortíð.

Tegundir sameinda sem greinast í vatnasetinu gefa upplýsingar um hvaða þörungategundir lifðu í vatninu og samsætusamsetning lífræns efnis skráir hitastig, vatnafræðilegar aðstæður og upplýsingar um hringrás næringarefna. Í verkefni Christopher Florian, doktorsnema við Jarðvísindadeild, er ætlunin að þróa aðferðir til mælinga á amínósýrum í grind kísilþörunga og samsætuhlutföll vetnis til rannsókna á samsætuhlutfalli úrkomu fyrri tíma, auk þess sem litarefni þörunga verða rannsökuð til að meta svörun vatnavistkerfa við loftslagsbreytingum.

Leiðbeinandi: Áslaug Geirsdóttir, prófessor við Jarðvísindadeild. Christopher hlaut styrk úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands í maí 2012.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is