Háskóli Íslands

STAFN - Styrktarsjóður Brynju Einarsdóttur og Arnar Almarssonar

Örn Almarsson, Jón Atli Benediktsson og Brynja Einarsdóttir við stofnun sjóðsins

Markmið sjóðsins er að stuðla að menntun og víðsýni efnilegs námsfólks í raungreinum, heilbrigðisvísindum, verkfræði og tölvugreinum, s.s. gervigreind og lífupplýsingafræði. Einkum er litið á umsóknir sem tengjast heilsu, líftækni og lyfjaþróun á einhvern hátt. Sjóðurinn veitir styrki til íslenskra nemenda við og frá Háskóla Íslands sem eru í framhaldsnámi, meistarastigi eða hærri stigum – hér heima eða erlendis, og tengja saman greinar í vinnu sinni, t.d. rannsaka líffræðilega ferla með tölvulíkönum og aðferðafræði gervigreindar. Sjóðnum er ætlað að efla samvinnu milli námssviða og hvetja námsfólk til víðrar hugsunar á milli tæknisviða og greina. Áætlað er að veita styrki til tveggja einstaklinga/verkefna á ári hverju í samræmi við markmið sjóðsins.

Sjóðurinn er stofnaður 5. janúar 2024. Stofnendur sjóðsins eru Brynja Einarsdóttir, snyrtifræðingur, og Örn Almarsson, efnafræðingur. Brynja og Örn eru hafnfirsk hjón, búsett í Bandaríkjunum, en með rætur og starfsemi á Íslandi. Örn útskrifaðist úr efnafræði frá Háskóla Íslands árið 1988.

Rektor Háskóla Íslands skipar úthlutunarnefnd sjóðsins til þriggja ára í senn. Hlutverk úthlutunarnefndar er að halda utan um úthlutanir úr sjóðnum og kynningarmál þeim tengd, í samstarfi við umsjónarmann Styrktarsjóða Háskóla Íslands. Í úthlutunarnefnd sjóðsins sitja:

  • Margrét Helga Ögmundsdóttir prófessor
  • Steinn Guðmundsson prófessor
  • Eiríkur Steingrímsson prófessor

Stjórn Styrktarsjóða Háskóla Íslands, sem skipuð er af háskólaráði, fer með stjórn sjóðsins. Stjórnin fer með æðsta vald í málefnum sjóðsins, fjársýslu og eftirlitshlutverk hans. Hér eru upplýsingar um stjórn Styrktarsjóðanna.

Hægt er að styrkja sjóðinn með peningagjöfum. Fjárhæðir má leggja inn á eftirfarandi bankareikning hjá Íslandsbanka: 596-26-1760. Kennitala Styrktarsjóða Háskóla Íslands er 571292-3199. Mikilvægt er að merkja greiðsluna nafni sjóðsins. Netfang Styrktarsjóða Háskóla Íslands er sjodir@hi.is.

Skipulagsskrá (PDF)

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is